Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 660, 112. löggjafarþing 130. mál: laun forseta Íslands (heildarlög).
Lög nr. 10 26. febrúar 1990.

Lög um laun forseta Íslands.


1. gr.

     Launakjör forseta Íslands skulu ákveðin af Kjaradómi.

2. gr.

     Forseti hefur ókeypis bústað, ljós og hita og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum.
     Undanþága skv. 1. mgr. nær þó ekki til eftirlauna.

3. gr.

     Allan útlagðan kostnað forseta vegna rekstrar embættisins ber að greiða sérstaklega úr ríkissjóði.

4. gr.

     Sá sem kjörinn hefur verið til og gegnt hefur embætti forseta Íslands á rétt til launa skv. 1. gr. í fyrstu sex mánuði eftir að látið er af embætti. Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur þessi launagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunurinn til loka sex mánaða tímans.

5. gr.

     Fyrrverandi forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum þeim sex mánuðum sem hann nýtur launa skv. 4. gr.
     Eftirlaunin skulu nema 60 hundraðshlutum af launum forseta Íslands eins og þau eru ákveðin af Kjaradómi hverju sinni. Ef forseti hefur gegnt embættinu meira en eitt kjörtímabil skulu eftirlaunin vera 70 hundraðshlutar launa forseta Íslands og 80 hundraðshlutar hafi forseti gegnt embættinu lengur en tvö kjörtímabil.
     Taki fyrrverandi forseti stöðu í þjónustu ríkisins fellur eftirlaunagreiðsla niður ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunur.

6. gr.

     Nú andast forseti eða fyrrverandi forseti, er laun tekur eða eftirlauna hefur notið, og skal þá greiða eftirlifandi maka laun út sex mánaða tímann skv. 4. gr. og að þeim tíma liðnum 60 hundraðshluta þeirra eftirlauna sem hinn látni hefði átt rétt á.
     Taki maki fyrrverandi forseta stöðu í þjónustu ríkisins fellur niður launa- og eftirlaunagreiðsla skv. 1. mgr. ef stöðunni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist launamismunur.

7. gr.

     Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir. Skulu launin skiptast að jöfnu milli þeirra.
     Handhafar forsetavalds skulu fá greiddan útlagðan kostnað vegna starfans.

8. gr.

     Með lögum þessum falla úr gildi lög nr. 3 frá 6. mars 1964, um laun forseta Íslands, og lög nr. 26 frá 2. maí 1969, um eftirlaun forseta Íslands.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1990.